17.7.2008 | 22:12
Led Zeppelin vs. Deep Purple
Þá er komið að því, örlítill saklaus samanburður á tveimur af bestu, svölustu og stórkostlegustu rokk böndum sögunnar. Led Zeppelin og Deep Purple. En er þetta ekki eins og að gera upp á milli foreldra sinna spurði Ingvar Valgeirs.
hmm...?
Veit ekki en þetta er alla vega skemmtileg pælíng, sko þetta með böndin.
Allavega...
Í tímaritinu Classic Rock (apríl 2005), skrifar Geoff Barton ansi hreint magnaða grein. Hann setur Deep Purple upp á móti Led Zeppelin og ber saman. Ég hermi hér eftir honum, stel smá frá honum og bæti svo smá við frá eigin brjósti. Við Geoff erum býsna mikið sammála...
Nú er rétt að taka fram að þetta er mitt blogg, mín skrif, mín skoðun og ef þú lesöndin mín góð ert ekki sammála þá verð ég mjög ánægður. Ég vona að ég fái að lesa þína skoðun á málinu.
Og þá byrja ég.
Í fyrsta skiptið sem ég heyrði í Deep Purple var það af hljómleikaplötunni Live in London, þar raulaði David nokkur Coverdale með bandinu og fór mikinn. Þessi plata hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér allar götur síðan, hrein snilld. Smoke on the water versjónin er engri annari viðlíka versjón lík, alveg einstök. Ég hef verið Purple-fan síðan og síðan eru liðin mörg ár þeir greidd´ í pi-iíí-u-kuu...
Í fyrsta sinn sem ég heyrði í Led Zeppelin var verið að spila Stairway to heaven á Rúv. Seinna heyrði ég svo Good times bad times. Þegar ég svo spilaði í mínu fyrsta bílskúrsbandi með Ödda, Rikka og Magna þá lékum við þetta lag og fannst við vera svalastir. (Nuclear Assault útgáfan er brill).
Ef við byrjum á bissness-hliðinni er ljóst að Zeppelin á fleiri platínu-plötur. Í Bretlandi einu hafa LZ hlotið átta 1. Verðlaunasæti (II, III, Four Symbols, Houses of the holy, Physical Graffiti, Presence, The song remains the same og In through the out door) á meðan DP hafa einungis hlotið tvenn fyrstu verðlaun (Fireball og Machine head). En er einhver að telja dollur hérna?
Led Zeppelin hafa ekki spilað að neinu viti eftir að Bonham dó. Deep Purple hafa hinsvegar spilað áfram þrátt fyrir miklar mannabreytingar, allt í nafni rokksins. Þetta hefur gefið DP stærri bakk-katalóg og að mínu mati betri. Best of LZ gæti slefað tvöfalda plötu á meðan Best of DP yrði 6 diska box.
Læf plötur DP eru líka skemmtilegri. ENGIN vissi t.d. hvort Blackmore myndi taka geðveikt gítarsóló eða kasta vatnsbrúsum í aðra hljómsveitarmeðlimi. Nú eða kveikt í sviðinu og troðið gítar inn í vídeótökuvélar. LZ eiga sínar hæðir en þær eru færri.
Meðlimir Led Zeppelin töluðu ekki við blaðamenn á ákveðnu tímabili á meðan Purple-liðar gátu ekki haldið kjafti nálægt blaðamönnum. Talsvert meira aksjón hjá Deep Purple.
Í dag röltir Page á milli partía og sýnir sig og allir bugta sig og beygja í aðdáun á öldruðu goðinu. Á meðan spígsporar Blackmore um í sokkabuxum og plokkar lútuna sína með dansandi dverga í kringum sig, gefandi út plötur nánast árlega. Hvor er svalari ég bara spyr?
Deep Purple eru úti á meðal fólksins, óhræddir við fortíðina, óhræddir við að fá komið-með-Ritchie-aftur, ræðuna frá fullum öfum, gefandi út brilljant plötur og túrandi út um allt. Led Zeppelin eru skít-lafhræddir við fortíðina og þora ekki niður úr fílabeinsturninum sem aðdáendurnir hafa rekið þá upp í.
Robert Plant gaf út svakalega plötu með Alison Krauss, Raising Sand. Ian Gillan hefur ekki gefið út sólóplötu í langan tíma en hann er líka að gera stórkostlega hluti með bandinu sínu, Deep Purple!!! Textarnir á síðustu DP-plötu eru með þeim betri sem hann hefur gert.
Að mínu mati eru Deep Purple skrefinu á undan Led Zeppelin. Þeir eiga líka, mjög einfaldlega sagt og skrifað, fleiri skemmtileg lög.
Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að Zeppelin er eitt af fremstu rokkböndum sögunnar. Áhrif þeirra á aðra tónlistarmenn verða seint metinn til fulls. Það fer bara smá í pirrurnar á mér hvað menn dýrka þetta band og elta í hálfgerðri blindni. Það má gagnrýna Led Zeppelin.
Fyrir mig, smá Led Zeppelin með miklu af Deep Purple takk!
Látið kommentunum nú rigna inn!
Es. Listinn minn, Topp tíu gítarleikararnir væntanlegur innan skamms...
Athugasemdir
"Led Zeppelin hafa ekki spilað að neinu viti eftir að Bonham dó"
Led Zeppelin hafa bara ekkert spilað saman síðan, nema við eitthvað 2 eða 3 sérstök tækifæri. Led Zeppelin voru þessir 4 menn og ekkert annað, aldrei.
Hvað er Deep Purple? Ja, fleiri tugir meðlima og þar á meðal margir söngvarar. Deep Purple var fínasta hljómsveit, mér fannst þeir alltaf góðir.
Hinsvegar, að bera þá saman við Led Zeppelin, er hreinasta firra. Það er bara ekki hægt. Þú gætir alveg eins borið saman vatn og 5 stjörnu Koníak.
Led Zeppelin er besta hljómsveit fyrr og síðar, eða eins og þeir sögðu sjálfir: "Við erum ekki bara bestir, við erum svo miklu betri en hver svo sem gæti verið nr. 2."
Deep Purple á mörg frábær lög, Led Zeppelin gerði meistaraverk á færibandi.
Meðlimir Led Zeppelin voru snillingar, hver á sínu sviði og enginn kemst með tærnar þar sem þeir voru og eru enn með hælana.
Deep Purple spilaði frábært heavymetal, Led Zeppelin spilaði heavymetal, blues, bluesrock og rock, alltsaman meistaralega og betur en nokkur annar.
Berðu frekar saman Deep Purple og Black Sabbath eða Uriah Heep, þar hefur Deep Purple meiri séns.
kop, 17.7.2008 kl. 23:09
Greinilega skiptar skoðanir um þessar hljómsveitir því mér finnst Led Zeppelin fremri á öllum purple sviðum.
Mín rök fyrir að mér finnst Led Zeppelin betri
Röddin hjá Robert plant er engri lík þegar hún var upp á sitt besta og að mínu mati voru allir hljóðfæraleikarar hljómsveitarinnar fremri en hjá Deep Purple.
Innan vébanda Led Zeppelin er einhver ofurmagnaðasti trommuleikari sem ég hef nokkurn tíman í heyrt með einhvern svakalegasta bassatrommufót og tækni sem fáir leika eftir. John Poul Jones var virkilega traustur bassaleikari sem tók varla feilnótu og var bassaleikari sem kunni þá list að "að spila fyrir bandið en ekki frir sjálfan sig". Í ofan á lag var gítarleikur Jimmy Page eins góður og hann getur verið.
Lagasmíðar hljómsveitarinnar voru miklu meira grípandi en hjá Deep-purpule og mér fannst sviðsframkoma þeirra í miklu töffaralegri. Ég veit allaveganna að margar konur hafa slefað yfir Róberti plant á sviði og get ég skilið vel ástæðuna því hann var ótrúlega svalur á sviði. Plant og jimmy page eru án nokkurs vafa miklu flottari sviðsmynd en Deep Purple og stór ástæða fyrir gríðarlegum vinsældum þeirra...
Ég hygg að þær ástæður sem ég nefni eru ekki úr lausu lofti gripnar enda er Led Zeppelin miklu stærra nafn í rokksögunni en Deep Purple þó svo að Deep Purple sé einnig gríðarlega stór.
Ekki samt misskilja mig . Ég elska mörg lög með Deap Purple
High way star og strange kind of voman eru samt í mestu uppáhaldi með þeim.
Þú verður að átta þig á því að þessi samanburður er ekki sambærilegur. Led Zeppelin hættu árið 1980 eftir að Bonham dó en purple eru enn starfandi.
Takk fyrir skemmtilegt blogg þráinn
Brynjar Jóhannsson, 18.7.2008 kl. 02:59
Gaman að sjá hvað við erum innilega sammála í þessu máli. Ætli þetta sé eitthvað sem var sett í mann ómeðvitað í Hafralækjarskóla?
Mér finnst DP einfaldlega skemmtilegri. Auk þess að vera búnir að gefa út miklu fleiri góð lög.
Ég er síðan innilega sammála því hversu ótrúlega óþarflega er snobbað fyrir LZ. Þeir eru efstir á öllum listum, plöturnar þeirra fá undantekningarlítið fullt hús hjá gagnrýnendum og fleira í þeim dúr. Þeir eru nú ekki alveg svo góðir. Stálu t.d. nokkrum lögum, meira að segja sumum af þeim þekktari (heimild Finnbogi). Ég held að þetta sé nett dauðukallaeinkenni hérna. Ef JB hefði ekki drukkið sig í hel og væri enn á lífi væri ekki jafn mikið snobbað fyrir þeim. Gott band samt.
Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 09:24
Takk fyrir kommentin drengir, gott að menn hafa skoðanir á þessu!
Brynjar: góðir punktar hjá þér. Ég hefði samt viljað sjá LZ halda áfram eftir dauða Bonham...
Alli: Það voru svo óhemju miklir Metal-hundar á Hafralæk...
Þráinn Árni Baldvinsson, 18.7.2008 kl. 11:31
Jamm...
Má eiginlega ekki gleyma að minnast á alla þá frábæru söngvara og hljóðfæraleikara sem hafa verið í Purple. Steve Morse, snilldargítaristi, Glenn Hughes, sem er einn af uppáhaldssöngvurum mínum, Tommy Bolin, Coverdale og svo náttúrulega þessa klassísku fimm, Gillan, Blackmore, Lord, Paice og Glover.
Svo má hér sjá Satriani með þeim, en hann lék með þeim um tíma eftir að Blackmore labbaði út á miðjum túr.
Svo finnst mér nýlegri plötur Purple bara ljómandi fínar, t.d. er Purpendicular (vonandi rétt stafsett) að mínu mati ein skemmtilegasta rokkplata sögunnar.
Það held ég nú...
Ingvar Valgeirsson, 18.7.2008 kl. 12:05
sælir meistarar
eigum við ekki bara að bera saman Stones og Beatles ? eða ? Pink Ployd og Small Faces ?????
ekki hægt, því miður ekki
Þegar ég heyrði fyrst í DP í Kanaradíó ca 1968 lagið var ""Hush" og söngvari
herra Evans ((hvar var Gillian ?) Eigum við ekki að gefa Zeppelin auka stig fyrir margt , eins og Immigrant Song , þar sem textinn hjá Plant kom eftir Íslandsheimsókn í júní 1970 sem ég fór á í Höllinni ?
þó svo "riffið" hafi verið komið áður (eins og kemur fram í viðtölum við þá PP)
meir um það síðar , sjá viðtöl við PP í t.d. tbl magazine (tight but loose)
og svo er í DVD frá 2003 nokkur skot frá RUV ,og þeir PP hafa oft talað um Íslandsheimsóknina í ýmsum viðtölum í mörg ár t.d. í The Guitar Player og eins í lesmáli með með DVD - inu (íslandsvinir með meiru)(voru mörg viðtöl við Deep Purple um þeirra Íslandstónleika ????)
LZ hættu raunverulega 1980 með yfirlýsingu þar um eftir dauða Bonham, og eins og oft hefur komið fram hafa þeir aðeins verið að spila saman í vissum tilfellum eins og brúðkaup , afmæli og þannig viðburðir , svona til gamans !
til er smá félagsskapur í Reykjavík sem er með alls konar LZ dót , eins og blöð og bootleg diska og hitt og þetta , t.d . á ég í mínum fórum ca 100 kg af bókum , blöðum og gömlu vínílplötunum og alls konar dóti um LZ
en DP eru mjög góðir og fá B ið á eftir A inu hjá Zeppelin, hjá mér, flott band þar á ferð og alveg mega góðir. Engin spurning.
til gamans;? Hvað voru miklar mannabreytingar í The Beatles ?????
Tryggvi
um
tryggvi (IP-tala skráð) 19.7.2008 kl. 01:06
Jamm það má lengi rífast um þetta...Ég er samt ekki viss um að þetta brölt á DP hafi verið bara í nafn rokksins. Þessir kallar eru svolítið eins og maðurinn í "ég er á leiðinni" með Brunaliðinu sem bara kann ekkert annað. Það er eflaust fín og nokkuð stöðug tekjulind að vera í DP, það hefði enginn farið að þrauka Blackmore bara í nafni rokksins. Þá hefðirðu bara haldið áfram að rokka með skemmtilegu fólki undir öðru nafni. Sem betur fer leystist það sjálft og ég efast ekki um að í dag hafa þeir agalega gaman af þessu.
Jón Geir (IP-tala skráð) 21.7.2008 kl. 18:00
Tryggvi, það voru eilitlar mannabreytingar í The Beatles. Stu Suthcliff var jú upphaflega bassaleikarinn og Best á trommur - svo var Ringo leystur af einn túr af trymbli, hvers nafn ég man ekki. Auk þess stóð til að ráða Billy Preston í lokin, en þar sem bandið var að fara til andsk... þótti þeim ekki taka því.
Mannabreytingar gera band ekki verra - Stones, Pink Floyd og fleiri hafa skipt út meðlimum. Ekkert að því. Í tilfelli Deep Purple hefur það bara fært bandið áfram og þróað það. Hvorki Gillan né Glover voru t.d. orgínal.
Ingvar Valgeirsson, 22.7.2008 kl. 12:41
Ég geri mér ekki grein fyrir því hvernig yngra fólk kynnist músík LZ og DP. Sjálfur er ég vel á sextugsaldri og upplifði innkomu þessara hljómsveita á markaðinn beint í æð.
Þar var ólíku saman að jafna. DP var upphaflega session hljómsveit. Á fyrstu plötunni, Shades of Deep Purple, 1968 var DP lítið spennandi krákuband (cover-band) sem flutti gamla þekkta slagara eftir Bítlana og Joe South og lag sem Jimi Hendrix hafði slegið í gegn með tveimur árum áður, Hey Joe.
DP vöktu litla athygli í Evrópu. Enda margar hljómsveitir að gera svipaða hluti þarna á hippaárunum. Aftur á móti kunnu Bandaríkjamenn vel að meta flutning DP á bandaríska slagaranum Hush. Bandaríski grínleikarinn frægi Bill Gosby varð svo hrifinn að hann gerði plötusamning við DP.
Ári síðar sendi DP frá sér misheppnaða hljómleikaplötu. Þar naut DP aðstoðar sinfóníuhljómsveitar. Margar aðrar hljómsveitir voru um þetta leyti einnig að þreifa sig áfram með að blanda klassískri tónlist og rokki saman. Flestum gekk það betur en DP.
Sama ár sendi LZ frá sér með nokkurra mánaða millibili sína fyrstu og aðra plötu. Þær hljómuðu svo ferskar, nýskapandi, frumlegar og spennandi að áheyrendur meðtóku þær sem óaðfinnanlega snilld. Fimm stjörnu plötur. Pottþéttar og hafa elst vel.
Bítlarnir hættu um svipað leyti og LZ komu fram á sjónarsviðið. LZ áttu þess vegna ekki í samkeppni við neina. LZ var besta rokkhljómsveit heims og hafði gífurlega mikil áhrif á þróun rokksins.
Næstu 4 plötur LZ voru í sama hágæða flokknum. LZ sló hvergi af fyrr en með plötunni Presence 1976 og hljómleikaplötu sem kom út sama ár.
LZ reyndist því þungarokki sem var í mótun 1969 öflug vítamínssprauta. Margar hljómsveitir sem voru að þróast í átt að þungarokkinu endurnærðust og fengu eins og gott spark í rassinn. Þær sprettu skyndilega vel úr spori. DP var ein þeirra. DP skipti um gír 1969. Næstu árin sendi hljómsveitin frá sér fjölda frábærra platna.
Það er nokkuð langt síðan ég hætti að fylgjast með DP. Mér þóttu þreytumerki vera farin að setja of sterkan svip á DP um eða upp úr miðjum áttunda áratugnum. Ég tel fáar líkur á að DP hafi hrist þreytuna af sér.
Jens Guð, 25.7.2008 kl. 03:35
Gaman að heyra frá þér Jens. Þetta er áhugavert og ég er sammála þér að LZ settu auðvitað ákveðinn standard fyrir þungarokksböndin sem á eftir komu.
Ertu búinn að hlusta á síðustu plötu DP? Hún er mjög góð
Þráinn Árni Baldvinsson, 25.7.2008 kl. 10:24
Þú færð 10.000 metalstig fyrir að neimdroppa NUCLEAR ASSAULT
Birkir Fjalar (IP-tala skráð) 29.7.2008 kl. 20:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.